17.11.06

Ný bloggsíða (enn einu sinni)

Af tæknilegum ástæðum (ekki geðrænum) er ég kominn með vesalings bloggið mitt á aðra síðu.

http://bassontheroad.wordpress.com/

er nýja slóðin

vinsamlegast farið þangað og segið hvað nýja síðan er fín

14.11.06

sdfasdfasdf

24.10.06

Oratoria fyrir punglausan tenór, skelþunnan bassa og kór í sjálfsmorðshugleiðingum

Á fyrstu hljómsveitaræfingu á Eddu Jóns Leifs fyrr í þessum mánuði runnu á marga þátttakendur tvær grímur (samtals hafa þetta því verið sennilega á þriðja hundruð grímur). Þetta verk hafði aldrei verið flutt í heild sinni og nú mörgum áratugum eftir að tónskáldið lauk við það var stóra stundin runnin upp. Kór og einsöngvarar höfðu þrjár æfingar með hljómsveitinni og kom þá fyrst í ljós hvers konar verkefni lá fyrir. Ég og Gunnar vinur minn Guðbjörnsson höfðum hittst nokkrum sinnum með píanóleikara til að læra okkar tóna. Það hafði að vísu gengið mjög vel enda var stuðst við samanteknar nótur hljómsveitarinnar, skrifaðar fyrir píanó. Á þessari fyrstu hljómsveitaræfingu varð okkur báðum hins vegar ljóst að tónarnir sem við höfðum verið að styðjast við voru kannski í pákunum eða í annarri víólu, nú eða þá í einhverjum hamri eða enskri ritvél. Við stóðum því tónlistarlega séð berrassaðir fyrir framan hljómsveit og kór og reyndum eftir fremsta megni að syngja oft á tíðum vitlausa tóna af mikilli sannfæringu. Gunnar stóð sig öllu betur enda búinn að hafa nóturnar í ár en ég aðeins í nokkrar vikur. Hljómsveitin skilaði sínu auðvitað með stakri prýði og kór Harðar í Hallgrimskirkju var frábær. Tónleikarnir sjálfir tókust síðan merkilega vel og var gaman að sjá að áheyrendur virtust kunna að meta þennan flutning okkar.
Hafi æfingar og tónleikarnir reynt á taugarnar þá var það ekkert í samanburði við þá þolraun sem fyrir okkur lá vikuna á eftir þegar upptökur á Eddunni fóru fram í Hallgrímskirkju. Fyrir utan það að vera alltaf syngjandi fyrir hádegi þá höfðum við alls ekki gert ráð fyrir því að upptökumennirnir kynnu að lesa nótur! Þetta þýddi að í hvert sinn sem vitlaus tónn laumaðist með var upptakan stöðvuð og byrjað upp á nýtt; alla vega á þeim frasa. Oft hef ég blótað því að hafa ekki lagt meiri stund á nótnalestur í söngnáminu forðum og þarna varð ég að játa mig sigraðan og það oftar en einu sinni. Í eitt skiptið eftir erfiðan kafla gekk ég í kaffistofuna, hristandi höfuðið yfir eigin getuleysi. Viðkunnarlegur víóluleikari brosti þá hughreystandi til mín og sagði að það væri ekki mér að kenna að ég hefði fæðst með þetta hljóðfæri. Þetta fannst mér dálítið gott hjá henni en var þó viss um að hún hefði mismælt sig og sagt "þetta hljóðfæri" í stað "þennan heila". Eftir fimm "upptökusessions" var Eddan loksins í höfn, með öllum tónum á réttum stað. Að vísu þarf mikið að klippa saman ekki óhugsandi að upptökumennirnir dundi sér við það jólaföndur eitthvað fram á næsta ár. Hverju sem því líður þá er diskurinn einhvern timann væntanlegur, jafnvel á næsta ári.

Af þessari reynslu lærði ég þrennt!
- Nám í nótnalestri skilar sér!
- Allt er gott sem endar vel!
- Jón Leifs er ekki sem verstur!

16.10.06

Íslendingur í afneitun

Þótt þú langförull legðir
sérhvert land undir fót
bera hugur og hjarta
samt þíns heimalands mót


orti höfuðskáld Vestur-Íslendinga, Stephan G. Stephansson í Kanada forðum en hélt þó aldrei aftur heim.
Ég á svo sem lítið sameiginlegt með stórskáldinu annað en það að hafa eytt bróðurpart fullorðinsáranna í útlandinu. Stephan las ljóðið sitt, ég söng það síðar; hann fór í vestur og ég í austur; hann varð eftir en ég ætla að koma aftur heim.
Já svona skipast oft fljótt veður í lofti. Eftir harðvítugt blogg mitt í lok ágúst um rok og rigningu er ég sem sé á heimleið. Það verður að segjast eins og er að ég kom sjálfum mér á óvart með þessari ákvörðun því ég hef alltaf haldið því fram að þrátt fyrir að vera stoltur Íslendingur myndi ég "ekki endilega" snúa aftur hingað. Í rokið og rigninguna? Hraðann og stressið? Slátrið og plokkfiskinn? En þetta er einmitt málið því það er heimalandið sem mótar mann. Ég er einfaldlega búinn að vera Íslendingur í afneitun!
Á sama tíma eru fjölskylduhagir hjá mér að breytast en fyrir því virðist vera komin ákveðin hefð (þetta var séríslensk kaldhæðni).

Nú fer ég sem sagt að hitta lesendur bloggsíðunnar meira og því vert að spyra sig hvort ég eigi ekki að blogga í framtíðinni á þýsku til að missa ekki tengslin við vini og kunningja í Germaníu.

29.8.06

Ein verdammtes Windarschloch

Þetta Ísland er bölvað vindrassgat. Ég var búinn að gleyma því. Hér á Lindargötunni þar sem ég bý um þessar mundir er núna brjálað rok. Allavega 8 vindstig. Dísus! Hvílíkt veðurfar! Hvílík náttúra! Og hvílík þrautseiga hjá forfeðrum okkar að halda þetta út á tímum moldarkofa og vosbúðar. Genin okkar eru einfaldlega vind- og vatnshreinsuð. Engin furða að fólk byggi hér hús úr steinsteypu. Nýja húsið okkar væri komið út á ballarhaf ef það hefði verið reist á Íslandi.

Um helgina skrapp ég norður á Akureyri og fór þar á óperutónleika undir berum himni í "Gilinu". Akureyringar eru stoltur þjóðflokkur og vilja þeir meina að flest sé nú betra norðan heiða en á höfuðborgarsvæðinu. Vissulega er bæjarstæði Akureyrar fallegt og oft eru hærri hitatölur hægra megin og uppi á veðurkortinu en vinstra megin og niðri. Þetta kvöld var hins vegar skítakuldi og rigning í þessari paradís norðursins. Í upphafi dáðist ég að söngvurum og hljómsveitinni fyrir að halda svona frábæra tónleika í þessu ömurlega veðri. Þegar leið á kvöldið dáðist ég hins vegar meira að áhorfendum sem létu kuldann ekki á sig fá og nutu tónleikanna með bros á vör og blautt hár. Þarna sýndu íslensku genin á sér sínar bestu hliðar. Hér kallar fólk ekki allt ömmu sína (hvernig svo sem það orðatiltæki er tilkomið) og lætur ekki veðurguðina segja sér fyrir verkum.

Ég minnist líka fyrsta golfmótsins sem ég tók þátt í í Leirunni. Vindurinn var svo mikill að við þurftum að leggja golfpokana á jörðina annars hefðu þeir fokið af golfkerrunum og kylfurnar sennilega skemmst. Keppendur slógu hver í kapp við annan upp í vindinn; klæddir í vind- og vatnsheldar vetarflíkur (í júní) og misstu jafnvægið í mestu kviðunum.

"The answer my friend is blowing in the Wind", söng Bob Dylan.
Skyldi hann einhvern tímann hafa komið til Íslands?

23.8.06

Nammidagur, sætur og fagur!

Öll eigum við okkar sterku og veiku hliðar. Seint verða allar mínar sterku hliðar upptaldar (það getur hver skilið á þann hátt sem vill) en eitt er víst að "sætindaást" er eitthvað sem fylgt hefur mér frá blautu barnsbeini. Í mínu ungdæmi var ekki mikið nammiúrval í sjoppum en ég var þeirrar gæfu aðnjótandi að eiga föður sem reglulega fór í millilandasiglingar. Hann kom því heim með amerískt nammi af öllum stærðum og gerðum. Oft var biðin erfið þegar t.d. Lagarfoss beið afgreiðslu á "ytri" höfninni eins og það var kallað og lítill drengur hlakkaði óskaplega mikið til að fá kannski smá nammi, nú eða jafnvel eitthvað nýtt dót!

Síðan eru liðin mörg ár og margt hefur breyst. Veikleikinn fyrir sætindunum er enn til staðar og hefur auðvitað haft þær afleiðingar að rúmmál mitt er meira en góðu hófi gegnir. Margar aðferðir hef ég prófað til að fækka kílóunum með misjöfnum árangri. Um tvítugt tókst mér t.d. að komast niður í meðalþyngd í nokkra mánuði; síðan þá hefur stefnan verið "uppávið".

Örverpið dóttir mín er ekki eins sólgin í þetta og ég en samt ákváðum við að hún hefði einn nammidag í viku eins og víða er siður. Eftir smá umhugsun ákvað ég að það sama skyldi yfir mig ganga; einn nammidagur í viku: Sunnudagur! Þetta hefur reynst alveg ágætlega, m.a.s. hafa nokkur kiló horfið án þess þó að ég neiti mér um þann munað að leyfa mjólkursúkkulaðihúðuðum rúsínum að bráðna upp í mér annað slagið. Nú er bara að sjá hvað setur. Ég var reyndar dálítið sniðugur að velja sunnudaginn því auðvitað eru þá allir frídagar líka nammidagar. Næsti frídagur er víst ekki fyrr en 3ja október (hér í Þýskalandi) og þá er ég á Íslandi. Spurningin er hvort hann teljist með og líklega verður ákveðin málamiðlun að borða bara þýskt nammi á þessum degi. Við sjáum til.

Um daginn (í miðri viku) var ég einu sinni sem oftar á ferðalagi í flugvél. Á matarbakkanum var samloka og smá súkkulaðistykki. Hróðugur borðaði ég samlokuna og leit glottandi á súkkulaðið. Þetta var ekki nammidagur og ekki "séns" að ég færi nú að svindla með einu smá flugvélasúkkulaði. Nokkrum mínutum síðar lentum við í töluverðri ókyrrð og vélin hristist öll og skalf. Án þess þó að verða virkilega flughræddur ákvað ég "til öryggis" að borða súkkulaðið ef svo illa færi að við kæmumst ekki á leiðarenda.
Mér finnst nefnilega gott gott gott.
BTK

18.8.06

Fyrsti íslenski homminn fundinn?

Einhver merkilegasti fornleifafundur síðari ára á sér núna stað á Vestfjörðum. Þar hefur tekist að finna óhreyft kuml, sem að vísu er ekki lengur óhreyft en það er önnur saga. Draga má ýmsar ályktanir af lífi þessa forföðurs okkar með því að kíkja betur í gröfina. Auk vopna fannst m.a. fagurlega skreyttur hárkambur. Af þessu dreg ÉG þá ályktun að um fyrsta íslenska hommann sé að ræða. Víkingar eru þekktir af öðru en snyrtimennsku og enhverju "pjatti". Kannski finnst álklumpur í næsta kumli og fyrsti íslenski stóriðjusjúklingurinn kemur þá í leitirnar.

Að öllu gríni slepptu þá er ánægjulegt að sjá hvernig umræðan um samkynhneigða hefur breyst frá því "ég var ungur". Á æskuslóðum mínum í Garðinum man ég bara ekki eftir neinum "kynvillingi" eins og þeir voru nefndir á niðrandi hátt á þessum tíma. Það gefur samt auga leið að í 1000 manna samfélagi er ákveðið hlutfall sem aðalaðast eigið kyn. Þeir hafa hins vegar ekki haft hátt um hvatir sínar enda þá sennilega lennt milli tannanna á fólki og jafnvel orðið fyrir einhverju ónæði. Það þurfti reyndar ekki mikið til svo menn lentu "utan Garðs" á þessum tíma. Ég var bara búinn að vera nokkrar vikur í grunnskóla þegar ég áttaði mig á að enginn mætti komast að því að mér þætti gaman að læra. Ég yrði sennilega bara laminn.

Vistinni á Spáni er lokið. Það er gott að vera kominn heim til Berlínar og ég hlakka líka til að koma á klakann. Eftirminnleg voru samtöl mín við tenórinn Mario Alves. Mario er af tenori að vera óvenju skemmtilegur og gáfaður. Síðan hans er http://marioalves.no.sapo.pt og þar er hægt að kynnast listamanninum betur.

Samtöl okkar fóru fram á ensku og þar kenndi ýmissa grasa: t.d. talaði Marió um "The Conductor of the Picture Machine!" sem sennilega útleggst sem ljósmyndari á móðurmálinu ylhýra.

góða helgi
BTK

12.8.06

Verslunarmannahelgin mín!Á gönguferð í miðborg San Sebastian fyrr í dag, komst ég í nokkurskonar "verslunarmannahelgarfíling". Fólksmergðin var svo mikil að maður þurfti að troðast til að komast áfram. Hér fyllist allt af ferðamönnum um helgar og núna í þetta sinn er líka einhverskonar "hátíð" sem trekkti enn meira fólk að. Tónlistarmenn skemmtu gestum og gangandi; að vísu ekki Stuðmenn eða Bubbi Morteins heldur baskverskur trúbador og á öðrum stað perúísk flautufjölskylda. Þá var auðvitað eitthvað um að fólk hefði áfengi um hönd en sennilega í minna magni en íslendingarnir eiga að venjast. Til viðbótar þessu var töluvert rok og það gekk á með skúrum. Samt voru baðstrendur þétt skipaðar (ekki þó eins og á myndinni hér fyrir ofan sem tekin var s.l. helgi).

Dvöl minni hér lýkur nú á mánudaginn. Í gær frumsýndum við Brottnámið og þegar að áhorfendur komust loksins í gang var stemmingin mjög góð. Að sýningu lokinni ætlaði fagnaðarlátunum aldrei að linna og því aðvelt að gleyma því að salurinn hefði verið í dauðara lagi til að byrja með. Seinni sýningin er á morgun og þá er þessari lotu lokið.


Næsta brottnám verður á Íslandi í haust. Ég kem síðustu vikuna í ágúst og verð út október. Svona lengi hef ég ekki dvalið á Íslandi síðan 1995.

Ég ætla auðvitað að hitta alla og gera allt þegar ég kem "heim". Mig langar t.d. að fara oft í leikhús og alla daga í sund og og og og og.....

Kannski getur einhver lesandi komið með frumlega(r) uppástungu(r) um hvað ég ætti að gera.

Skál!
BTK


7.8.06

Að gera at í nauti!


Veggspjaldið hér fyrir ofan varð á vegi mínum í gær og stóðst ég ekki freistinguna að smella af því mynd. Hér er verið að auglýsa mótmælagöngu, þar sem þjóðaríþrótt Spánverja, nautaati, er mótmælt af mjög svo skiljanlegum ástæðum. Persónulega er ég nefnilega líka andvígur hvers konar dýraslátrun sem ekki þjónar fæðukeðjutengdum tilgangi. Sumir tala um nautaat sem íþrótt en margir Spánverjar líta á atið sem einhvers konar list. Í ferðapésanum sem ég tók með mér stendur ýmislegt um þennan ófögnuð. Eftir að þátttakendur eru mættir á völlinn hefst fyrsti hluti atsins. Svonefndur Picador, ríðandi á hesti, byrjar á því að stinga spjóti í hnakkvöðva nautsins. Þetta er gert til þess að nautið beri höfuðið ekki eins hátt í bókstaflegri merkingu. Næst koma Banderillas á völlinn og stinga tveimur styttri spjótum í hnakka nautsins og þurfa þessi spjót að standa eftir. Í síðasta hlutanum kemur nautabaninn (matador) með rauðan dúk og reynir að láta nautið beyja höfuðið enn meira svo að sverðið sem nautabaninn notar komist dýpra inn í búk dýrsins við "aftökuna". Nautabaninn er oft verðlaunaður/heiðraður að ati loknu og hafi hann staðið sig mjög vel fær hann bæði hala nautsins og eyru að launum. Á ári hverju er um 11.000 dýrum slátrað á Spáni á þennan hátt. Kjötinu eru síðan öllu eytt vegna þeirra ströngu reglna sem Evrópusambandið hefur um slátrun dýra.
Mannskepnan hefur eitt síðustu 10.000 árum í að reyna að hafa stjórn á þeim frumstæðu hvötum sem gera okkur að dýrum frekar enn að mönnum. Á vígvelli styrjalda losnar um þessar hvatir og maðurinn drepur og limlestir eins og ekkert sé. Í nautaati er maðurinn í hlutverki hins sterka dýrs yfir hinu veika; hann er drottnarinn sem ákveður örlög sér minni máttar. Þetta er skemmtilegur boðskapur fyrir börnin okkar (eða þannig) og jafnréttlætanlegur eins og hnefaleikar.
Góðar stundir
BTK

4.8.06

a terrific business-man-weekend

Atlavík - Þjórsárdalur - Galtalækur. Þetta voru staðirnir sem ég sótti heim um Verslunarmannahelgar þegar ég var ungur. Ég fór auðvitað fyrst á Bindindismótið í Galtalæk við rætur Heklu. Þar byrjaði ég að drekka eins og svo margir aðrir enda var það stranglega bannað og þ.a.l. mjög spennandi. Síðan fór ég í nokkur skipti í Þjórsárdalinn og svo eitt sinn í Atlavík með nokkrum skátum frá Akranesi. Það fór samt lítið fyrir góðverkunum þá helgina.
Þegar maður segir mið-evrópubúum frá þessum sér-íslenska sið; að fara á fjögurra daga stanslaust fyllerý einhvers staðar innan um nauðganir og slagsmál, þá renna á marga tvær grímur. Síðan reynir maður að réttlæta þessi ósköp en smátt og smátt áttar maður sig á því að það er bara eiginlega ekki hægt.
Best var þó lýsing vinkonu minnar úr Keflavík á ferð á Þjóðhátíð eitt árið:
"Ég var orðin svo full á leinni út í Eyjar með Herjólfi að ég ældi yfir bakbokann minn. Síðan þegar við komum út í dal og byrjuðum að tjalda þá fór að rigna svona líka rosalega að við blotnuðum inn að skinni. Um kvöldið dró einhver hálfviti mig með sér inn í eitthvað tjald og var næstum búinn að nauðga mér. Mér tókst einhver veginn að skríða út og þar í drullunni týndi ég veskinu mínu. Þegar ég kom aftur í tjaldið okkar þá var búið að stela öllu áfenginu okkar en það gerði ekkert til því við fengum landa gefins frá einhverjum sjóurum. Eitthvað hefur landinn verið slæmur því næsta dag gat ég engum mat haldið niðri. Þá um kvöldið hætti að rigna og um nóttina tók sig einhver til og brenndi tjaldið okkar. Á mánudeginum á leiðinni heim ældi ég allan tímann, bæði í Herjólfi og svo í rútunni...... Þetta var ÆÐISLEG HELGI!"
Góða ferð!
BTK