23.8.06

Nammidagur, sætur og fagur!

Öll eigum við okkar sterku og veiku hliðar. Seint verða allar mínar sterku hliðar upptaldar (það getur hver skilið á þann hátt sem vill) en eitt er víst að "sætindaást" er eitthvað sem fylgt hefur mér frá blautu barnsbeini. Í mínu ungdæmi var ekki mikið nammiúrval í sjoppum en ég var þeirrar gæfu aðnjótandi að eiga föður sem reglulega fór í millilandasiglingar. Hann kom því heim með amerískt nammi af öllum stærðum og gerðum. Oft var biðin erfið þegar t.d. Lagarfoss beið afgreiðslu á "ytri" höfninni eins og það var kallað og lítill drengur hlakkaði óskaplega mikið til að fá kannski smá nammi, nú eða jafnvel eitthvað nýtt dót!

Síðan eru liðin mörg ár og margt hefur breyst. Veikleikinn fyrir sætindunum er enn til staðar og hefur auðvitað haft þær afleiðingar að rúmmál mitt er meira en góðu hófi gegnir. Margar aðferðir hef ég prófað til að fækka kílóunum með misjöfnum árangri. Um tvítugt tókst mér t.d. að komast niður í meðalþyngd í nokkra mánuði; síðan þá hefur stefnan verið "uppávið".

Örverpið dóttir mín er ekki eins sólgin í þetta og ég en samt ákváðum við að hún hefði einn nammidag í viku eins og víða er siður. Eftir smá umhugsun ákvað ég að það sama skyldi yfir mig ganga; einn nammidagur í viku: Sunnudagur! Þetta hefur reynst alveg ágætlega, m.a.s. hafa nokkur kiló horfið án þess þó að ég neiti mér um þann munað að leyfa mjólkursúkkulaðihúðuðum rúsínum að bráðna upp í mér annað slagið. Nú er bara að sjá hvað setur. Ég var reyndar dálítið sniðugur að velja sunnudaginn því auðvitað eru þá allir frídagar líka nammidagar. Næsti frídagur er víst ekki fyrr en 3ja október (hér í Þýskalandi) og þá er ég á Íslandi. Spurningin er hvort hann teljist með og líklega verður ákveðin málamiðlun að borða bara þýskt nammi á þessum degi. Við sjáum til.

Um daginn (í miðri viku) var ég einu sinni sem oftar á ferðalagi í flugvél. Á matarbakkanum var samloka og smá súkkulaðistykki. Hróðugur borðaði ég samlokuna og leit glottandi á súkkulaðið. Þetta var ekki nammidagur og ekki "séns" að ég færi nú að svindla með einu smá flugvélasúkkulaði. Nokkrum mínutum síðar lentum við í töluverðri ókyrrð og vélin hristist öll og skalf. Án þess þó að verða virkilega flughræddur ákvað ég "til öryggis" að borða súkkulaðið ef svo illa færi að við kæmumst ekki á leiðarenda.
Mér finnst nefnilega gott gott gott.
BTK

2 Comments:

At 11:14 f.h., Anonymous Nafnlaus said...

hæ dear ,

er góður gestur á blogginu þínu og hef mjög gaman af - sit hér í kuala lumpur - 14 kg þyngri og enn með bumnbu út í loftið - hef það mjög gott hér í útlandinu og get fullyrt það að hér er góður matur og fjölbreytnin mikil...og líka til mikið nammi ...sá meirað segja haribo gúmmi um daginn...milka fæst hér líka ...og í íkea fæst líka lakkrís ...
ég fer kannski að blogga ....ég þarf að læra á þetta fyrst . hvernig er að láta fullt af fólki lesa um líf manns ?? þarf maður ekki aðeins að venjast því ??
bestu í bili - og hlakka til að vera í sambandi - þrátt fyrir mikla fjarlægð

gunný - ex vínarbúi -

 
At 1:31 e.h., Anonymous Nafnlaus said...

Þú ert og verður Sælgætisgrís og það er ekki til neins að setja einhverja Nammidaga á þig ...

Gaman að sjá Gunný hérna ... endilega blogga, það er ekkert rosalegt að venjast því að ókunnungt lið sé að lesa um líf manns ... Bara henda sér útí djúpu lögina.

Kv. Örvar

 

Skrifa ummæli

<< Home