16.10.06

Íslendingur í afneitun

Þótt þú langförull legðir
sérhvert land undir fót
bera hugur og hjarta
samt þíns heimalands mót


orti höfuðskáld Vestur-Íslendinga, Stephan G. Stephansson í Kanada forðum en hélt þó aldrei aftur heim.
Ég á svo sem lítið sameiginlegt með stórskáldinu annað en það að hafa eytt bróðurpart fullorðinsáranna í útlandinu. Stephan las ljóðið sitt, ég söng það síðar; hann fór í vestur og ég í austur; hann varð eftir en ég ætla að koma aftur heim.
Já svona skipast oft fljótt veður í lofti. Eftir harðvítugt blogg mitt í lok ágúst um rok og rigningu er ég sem sé á heimleið. Það verður að segjast eins og er að ég kom sjálfum mér á óvart með þessari ákvörðun því ég hef alltaf haldið því fram að þrátt fyrir að vera stoltur Íslendingur myndi ég "ekki endilega" snúa aftur hingað. Í rokið og rigninguna? Hraðann og stressið? Slátrið og plokkfiskinn? En þetta er einmitt málið því það er heimalandið sem mótar mann. Ég er einfaldlega búinn að vera Íslendingur í afneitun!
Á sama tíma eru fjölskylduhagir hjá mér að breytast en fyrir því virðist vera komin ákveðin hefð (þetta var séríslensk kaldhæðni).

Nú fer ég sem sagt að hitta lesendur bloggsíðunnar meira og því vert að spyra sig hvort ég eigi ekki að blogga í framtíðinni á þýsku til að missa ekki tengslin við vini og kunningja í Germaníu.

4 Comments:

At 3:06 f.h., Anonymous Nafnlaus said...

það var mikið!! Og skáldlegur...
neeeei...ekki þýsku, þá færðu ekki eins merkilega lesendur! (nei nei ég hef ekkert á móti þýskumælandi fólki) ég held að þetta verði þá allt gerilsneyddara og geldara hjá þér!

 
At 10:25 f.h., Anonymous Nafnlaus said...

Loksins loksins ...

Það var löngu komin tími á þetta blogg. Þýsku, ítölsku, frönsku eða kínversku ... skiptir ekki öllu, haltu bara áfram að gleðja lesendur þína;)

 
At 7:47 e.h., Blogger bassbarinor said...

Má til með að óska þér hér aftur til hamingju með sýninguna heima. Þetta gerirðu vel karl. Heilsaðu öllum heima...sem þú heldur að vilji muna eftir mér.

E.Th.

 
At 5:33 e.h., Blogger Blogg Baldur F. Sigfússon said...

Kærar þakkir fyrir "aumingja" Osmin!
"Þó" þú langförull - ekki "Þótt".

BFS

 

Skrifa ummæli

<< Home