24.10.06

Oratoria fyrir punglausan tenór, skelþunnan bassa og kór í sjálfsmorðshugleiðingum

Á fyrstu hljómsveitaræfingu á Eddu Jóns Leifs fyrr í þessum mánuði runnu á marga þátttakendur tvær grímur (samtals hafa þetta því verið sennilega á þriðja hundruð grímur). Þetta verk hafði aldrei verið flutt í heild sinni og nú mörgum áratugum eftir að tónskáldið lauk við það var stóra stundin runnin upp. Kór og einsöngvarar höfðu þrjár æfingar með hljómsveitinni og kom þá fyrst í ljós hvers konar verkefni lá fyrir. Ég og Gunnar vinur minn Guðbjörnsson höfðum hittst nokkrum sinnum með píanóleikara til að læra okkar tóna. Það hafði að vísu gengið mjög vel enda var stuðst við samanteknar nótur hljómsveitarinnar, skrifaðar fyrir píanó. Á þessari fyrstu hljómsveitaræfingu varð okkur báðum hins vegar ljóst að tónarnir sem við höfðum verið að styðjast við voru kannski í pákunum eða í annarri víólu, nú eða þá í einhverjum hamri eða enskri ritvél. Við stóðum því tónlistarlega séð berrassaðir fyrir framan hljómsveit og kór og reyndum eftir fremsta megni að syngja oft á tíðum vitlausa tóna af mikilli sannfæringu. Gunnar stóð sig öllu betur enda búinn að hafa nóturnar í ár en ég aðeins í nokkrar vikur. Hljómsveitin skilaði sínu auðvitað með stakri prýði og kór Harðar í Hallgrimskirkju var frábær. Tónleikarnir sjálfir tókust síðan merkilega vel og var gaman að sjá að áheyrendur virtust kunna að meta þennan flutning okkar.
Hafi æfingar og tónleikarnir reynt á taugarnar þá var það ekkert í samanburði við þá þolraun sem fyrir okkur lá vikuna á eftir þegar upptökur á Eddunni fóru fram í Hallgrímskirkju. Fyrir utan það að vera alltaf syngjandi fyrir hádegi þá höfðum við alls ekki gert ráð fyrir því að upptökumennirnir kynnu að lesa nótur! Þetta þýddi að í hvert sinn sem vitlaus tónn laumaðist með var upptakan stöðvuð og byrjað upp á nýtt; alla vega á þeim frasa. Oft hef ég blótað því að hafa ekki lagt meiri stund á nótnalestur í söngnáminu forðum og þarna varð ég að játa mig sigraðan og það oftar en einu sinni. Í eitt skiptið eftir erfiðan kafla gekk ég í kaffistofuna, hristandi höfuðið yfir eigin getuleysi. Viðkunnarlegur víóluleikari brosti þá hughreystandi til mín og sagði að það væri ekki mér að kenna að ég hefði fæðst með þetta hljóðfæri. Þetta fannst mér dálítið gott hjá henni en var þó viss um að hún hefði mismælt sig og sagt "þetta hljóðfæri" í stað "þennan heila". Eftir fimm "upptökusessions" var Eddan loksins í höfn, með öllum tónum á réttum stað. Að vísu þarf mikið að klippa saman ekki óhugsandi að upptökumennirnir dundi sér við það jólaföndur eitthvað fram á næsta ár. Hverju sem því líður þá er diskurinn einhvern timann væntanlegur, jafnvel á næsta ári.

Af þessari reynslu lærði ég þrennt!
- Nám í nótnalestri skilar sér!
- Allt er gott sem endar vel!
- Jón Leifs er ekki sem verstur!

5 Comments:

At 6:27 e.h., Anonymous Nafnlaus said...

Hello my dear bassfriend. I can't read a line of your textes but I hope it could be a way to keep in touch.
How was your icelandic Entführung? I promised you to send you a copy of the Lisbon one (you want a CD or a DVD copy...? Sorry, I can't remember!).
Everything ok with your beautiful family? Let me know. With me everything ok!
See yy yy yy yyou
M mm mm mario

 
At 1:03 e.h., Anonymous Nafnlaus said...

Nótnalestur er málið mar ....

Kv. Örvar

 
At 2:04 f.h., Anonymous Nafnlaus said...

Jahérnahér!! Ég er svoleiðis aldeilis hlessa! Trúlega hefur þér misheyrst....

 
At 6:05 f.h., Anonymous Nafnlaus said...

Já, einusinni sungum við Jón Þorsteinsson bita úr þessu með Pólýfónkórnum og Sinfó. Það var gaman að því eftirá, en ekki á meðan.

Annars verður að segjast um Jón Leifs, að það er eitthvað við þetta...

Ég held það hafi verið George Bernhard Shaw sem sagði þessa eftirminnilegu setningu:
Wagner is better than he sounds.

Það mætti kannski finna eitthvað svipað að segja um Jón Leifs??

Kærar kveðjur
Kem á þriðjudag.
Komdu í kaffi. (Samt ekki á þriðjudaginn)

 
At 1:26 e.h., Anonymous Nafnlaus said...

aaaaaaaár var aaaaaaalda..

þú varst hrikalega flottur í þessu og skalt ekkert vera að stressa þig á þó sumir tónarnir þyrftu nokkrar atrennur.. við í kórnum vorum bara dauðfegin að fá þá smá hvíld á meðan :D

 

Skrifa ummæli

<< Home